Úrslit og stöður á föstudegi
júlí 1, 2022Pollamót 2023 – Komdu norður!
nóvember 8, 2022Knattspyrnukeppni 35. Pollamótsins – eða Pollamóts Samskipa eins og það heitir þar sem Samskip hafa verið okkar stærsti samstarfsaðili við mótshaldið undanfarin ár – fór að mestu vel fram og lauk með úrslitaleikjum í flestum deildum síðdegis á laugardag. Því miður fylgja ýmis óhöpp svona mótum og leikmenn meiðast, og sendum við þeim þátttakendum sem lentu í slíku bestu batakveðjur.
Metþátttaka – sprenging hjá konunum
Alls skráðu 67 lið sig til leiks á mótinu, sem er metþátttaka, en að okkar bestu vitun höfðu þátttökulið orðið flest 62 áður, árin 2015 og 2021. Fjöldi karlaliða var svipaður og undanfarin ár, en það voru konurnar sem áttu heiðurinn að þessari fjölgun. Þar höfðu liðin flest verið 18 árið 2019, en nú voru 25 lið með nokkuð á fjórða hundrað leikmönnum skráð í kvennadeildirnar, sem er met. Þátttakendur voru um 830 þegar upp var staðið, en vegna þreytu, meiðsla eða jafnvel metnaðar hjá sumum liðum bættu allmörg lið við sig leikmönnum á síðari mótsdeginum.
Keppt var í sjö aldursskiptum deildum, fjórum hjá körlunum og þremur hjá konunum.
Verðlaunahafar í deildum – konur
Ljónynjudeild – 35+ | Dömudeild – 28+ | Skvísudeild – 20+ |
1. AFK | 1. FC Lola | 1. FC Guns |
2. KR old girls | 2. Dætur Þorpsins | 2. 225 |
3. Drottningar | 3. FC Rækjan | 3. Trunturnar |
Verðlaunahafar í deildum – karlar
Öðlingadeild – 50+ | Lávarðadeild – 42+ | Jarladeild – 35+ | Polladeild – 28+ |
1. Grótta | 1. Ginola | 1. KFF Masters | 1. Vinir Linta |
2. Umf. Óþokki | 2. Umf. Óþokki | 2. Allt annar flokkur | 2. SÚN FC |
3. KR | 3. Lion KK | 3. FC Samba Legends | 3. Fasteignafélagið |
Ýmis verðlaun
Einnig voru veitt önnur verðlaun af ýmsum toga.
Verðlaunahafar:
Heiðursverðlaun Pollamótsins: KR old girls og KR karlalið
Gleðigjafar: Norður – WOD the hell
Þorparinn, konur: Edda Garðarsdóttir
Þorparinn, karlar: Óðinn Svan Óðinsson
Búningameistarar: Umf. Óþokki
Heiðursverðlaun Pollamótsins 2022: KR
Stelpurnar í KR, eða KR old girls eins og liðið kallar sig, eiga mestan heiður af því að Ljónynjudeildin varð til, eða elsta deildin af þremur í kvennaflokki. Eftir að þær höfðu komið á Pollamót á hverju ári í mörg ár og urðu auðvitað árinu eldri í hvert skipti sem þær mættu norður komu þær með hugmynd um að Pollamótið myndi stofna kvennadeild fyrir 35 ára og eldri. Það varð úr og KR-stelpurnar hafa haldið tryggð við Pollamótið í áraraðir. Þær tóku núna þátt í Pollamótinu í 20. skipti og gáfu sterklega til kynna með áritun á boli að þetta yrði þeirra síðasta skipti. En þetta er nú samt einu sinni Pollamót og aldrei að segja aldrei. Löngunin til að mæta vaknar og verður sterk þegar vorar á næsta ári og kannski koma þær aftur. Það verður að koma í ljós. Pollamótið býður líka upp á þann möguleika að skrá sig á leikmannamarkað og ef einhver hópur nær ekki fullu liði geta einstaklingar úr þeim hópi „selt sig“ í önnur lið.
En KR-stelpurnar voru mögulega að taka þátt í Pollamótiniu í síðasta skipti og því ákvað mótsnefndin að heiðra þær sérstaklega og veita þeim heiðursverðlaun Pollamótsins.
Jafnframt var ákveðið að verðlaunin færu sameiginlega til kvenna- og karlaliðs KR, en karlarnir í KR hafa einnig verið tryggir þátttakendur á Pollamótunum í áraraðir, sömu andlitin sem birtast ár eftir ár og færast upp um deildir eftir því sem árin hafa liðið – halda samt alltaf áfram að koma.
Gleðigjafar annað árið í röð
Liðið Norður – WOD the hell hlaut útnefningu sem gleðigjafar mótsins annað árið í röð. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta fjöruga og skemmtilega lið, en þær unnu hug og hjörtu þátttakenda, og kannski sérstaklega dómara og mótsstjórnar, með skemmtilegri framkomu og ekki síður góðum gjöfum. Það má.
Úkraínuþema hjá búningameisturunum
Ungmennafélagið Óþokki á sér langa sögu á Pollamótunum. Á hverju ári sendir þessi félagsskapur tugi knattspyrnukarla og stundum -kvenna til keppni. Að þessu sinni voru fimm lið frá Óþokkunum, eitt í Öðlingadeild, eitt í Lávarðadeild, tvö í Jarladeild og eitt í Polladeild. Tvö af liðum Óþokka unnu til silfurverðlauna á mótinu, eins og fram kemur hér að ofan.
Við vitum það ekki alveg fyrir víst, en líklegt er að Ungmennafélagið Óþokki fjárfesti í nýjum búningum á hverju ári. Mögulega er það af því að stærðir breytast, en þó líklegra að þar sé bara hreinn metnaður sem býr að baki. Þetta árið má þó segja að hrein góðvild í garð náungans hafi átt þátt í hönnun búninga liðsins því eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er hönnun búninganna tileinkuð Úkraínu. Um það þarf ekki fleiri orð. Ungmennafélagið Óþokki hlaut verðlaun sem búningameistarar Pollamótsins 2022.
Bestu þakkir til ykkar allra!
Þrátt fyrir margs konar skallaföll innan og utan vallar má segja að Pollamót Samskipa 2022 hafi heppnast vel. Þegar um 830 knattspyrnuhetjur á öllum aldri safnast saman og etja kappi þarf gott skipulag og fjölmarga Þórsara, jafnt starfsfólk sem sjálfboðaliða, til að allt gangi snurðulaust fyrir sig.
Félagið býr vel að slíku fólki og færir mótsnefndin hér með starfsfólki Þórs og sjálfboðaliðum á vegum Þórs og Þórs/KA bestu þakkir fyrir frábært framlag til mótsins. Án þessa fjölmenna hóps væri ekki hægt að halda slík mót. Síðast en ekki síst þökkum við öllum þátttakendum á mótinu fyrir frábæra samveru og skemmtilegheit á 35. Pollamótinu.
Sjáumst að ári! – Dagsetning Pollamóts Samskipa 2023 verður gefin út á allra næstu dögum.
Úrslit í öllum deildum
Hér að neðan má sjá myndir með úrslitum allra leikja, lokastöðum í riðlum/deildum og úrslitakeppnir í deildum þar sem það á við. Við erum að vinna úr myndum af verðlaunahöfum og birtum þær sérstaklega síðar.