Punktar um skráningu á Pollamótið
júní 23, 2022Engar biðraðir!
júní 29, 2022Nú hefur verið dregið í riðla og dregið um röð í deildum eftir því sem við á og niðurröðun leikja í öllum deildum er tilbúin. Metþátttaka er í mótinu í ár, sem markast af sprengingu í þátttöku kvenna.
Samtals eru 67 lið skráð, en hafa mest verið 62 áður, árin 2015 og 2021. Karlaliðin eru 42, en þau hafa flest verið 45 í nokkur skipti. Nú hefur hins vegar orðið hálfgerð sprenging í skráningu kvenna. Áður hafa kvennaliðin flest orðið 18 árið 2019, en nú eru 25 kvennalið skráð, fjögur í Ljónynjudeild (35+), 12 í Dömudeild (28+) og níu í Skvísudeild (20+). Pollamótið var upphaflega stofnað sem „strákamót“ og var það fyrstu árin. Fyrsta konan til að taka þátt í Pollamóti var Þórunn Sigurðardóttir, en hún fékk „undanþágu“ til að standa í markinu hjá karlaliði Magna árið 1996. Tóta fékk heiðursverðlaun Pollamótsins 2019. En nú eru „Tóturnar“ orðnar nokkuð á fjórða hundraðið.
Höfuðverkur að velja byrjunarlið, 18 á bekknum
Eitt það skemmtilegasta við Pollamótin er að getustigið er mjög breitt og ástæður fyrir þátttöku mismunandi. Markmiðin eru alls konar. Á Pollamótum er spilaður sjö manna bolti, þ.e. sjö leikmenn inni á vellinum í einu. Það eru hins vegar engin takmörk á því hve margir leikmenn mega vera í hóp hjá hverju liði og nokkur lið mæta iðulega með yfir 20 leikmenn. Þar er ekki verið að svekkja sig á spiluðum mínútum eins og í „alvöru bolta“. Líklegast er eitt af liðunum í Skvísudeildinni að setja met þetta árið, en liðið Norður – WOD did we get into hefur skráð 25 leikmenn. Höfuðverkur fyrir þjálfara/framkvæmdastjóra að velja byrjunarlið? Nokkuð víst þó að þær 18 sem byrja á bekknum eru ekki að bíða eftir félagaskiptaglugga til að skipta um lið til að fá að spila meira.
Svartur virðist vinsæll litur á treyjum og til að mynda hafa tíu lið af 25 í kvennadeildunum tilkynnt um svartar treyjur. Nöfn á liðum eru líka alls konar, en mun færri lið keppa nú undir merkjum eiginlegra knattspyrnufélaga með aðild að KSÍ og fleiri og fleiri lið mæta með sín eigin nöfn. Enn eru samt nokkur lið sem kenna sig við rótgróin félög, s.s. Þór, KR, KS, Huginn (að hluta), Grótta, Magni, Þróttur, Umf. Samherjar, Leiftur og Hrafnkell Freysgoði.
En öllu gamni fylgir nokkur alvara og nú eru leikjadagskrár tilbúnar, óvenju snemma. Fyrir tveimur árum breyttum við skráningarfyrirkomulagi og settum lokadag skráningar á sunnudegi fyrir mót, í stað þess að skrá lið alveg fram á síðasta dag, draga í riðla á fimmtudagskvöldi og raða upp mótinu fram á nótt. Þetta fyrirkomulag gefur markvissari skráningu leikmanna, betri tíma til að setja upp mótið og leikjadagskrár eru tilbúnar fyrr.
Leikjadagskrár og reglur
Leikjadagskrár, riðlaskipting – ásamt úrslitum leikja og stöðu í deildum – eru í pdf-skjölum í möppu á google-drive. Þar má einnig finna skjal með keppnisfyrirkomulagi í öllum deildum, nokkrum helstu punktum úr reglunum, myndum með vallaskipulagi og ábendingum um bílastæði (sjá einnig neðar í fréttinni). Sjá tengil hér að neðan.
Leikjadagskrár – úrslit leikja – stöður í deildum – pdf-skjöl
Nokkur hagnýt atriði og ábendingar
- Ekki er boðið upp á tjaldstæði á Þórssvæðinu.
- Þátttaka í mótinu gefur ekki afslátt á miðum á ballið.
- Miðasala á ballið er eingöngu á tix.is
- Frítt er inn á viðburði á fimmtudags- og föstudagskvöldi í Hamri og á pallinum.
- Verðlaunaafhendingar fara fram á sviði við Hamar jafnóðum og keppni klárast í hverri deild.
- Ekki verður verðlaunað fyrir markahæstu leikmenn í deildum, en önnur verðlaun koma í staðinn.
- Leikmannamarkaðurinn er opinn – hafið samband í haralduringolfsson@gmail.com – sjá pollamot.is/leikmannamarkaður
- Gestir á Pollamóti eru vinsamlega beðnir að sýna íbúum hverfisins tillitssemi og leggja ekki á bílastæðum við íbúðablokkir.
- Stranglega er bannað að leggja á göngustígum.
- Góð leið til að minnka örtröð er að liðsfélagar sameinist í bíla þegar þeir mæta til leiks.