Leikmannamarkaður
júní 23, 2021Skráningu liða lokið
júní 28, 2021Eins og áður hefur komið fram þurfa núna öll lið sem ætla að taka þátt í mótinu að skrá sig í gegnum skráningarsíðuna hér á pollamot.is. Jafnframt þarf að setja inn nöfn og kennitölur allra leikmanna ásamt fleiri upplýsingum og velja um hvort greitt er með korti strax eða millifært. Við skráningu liðs þarf að setja inn a.m.k. sjö leikmenn.
Lokað verður fyrir skráningu nýrra liða að kvöldi sunnudagskvöldið 27. júní. Eftir að skráningarfrestur liða rennur út er þó engu að síður hægt að bæta við stökum leikmanni/-mönnum inn í lið sem þegar hefur verið skráð í mótið. Einnig er leyfilegt að skrá leikmann eftir að mót hefst, en gjaldið er þó alltaf það sama, 6.000 krónur, óháð því hve seint leikmaðurinn kemur inn í mótið. Rétt er einnig að vekja athygli á því að óheimilt er að tveir einstaklingar deili armbandi/þátttöku, þannig að annar spili fyrri daginn og hinn seinni daginn. Eitt armband, einn einstaklingur. Svo einfalt er það.
Nýja skráningarkerfið og breyttur skráningarfrestur eru hugsuð til þess að hvetja fólk til að ákveða sig fyrr um þáttöku í mótinu, fækka tilvikum þar sem vafi leikur á hvort leikmaður er löglegur með liði eða ekki og vanda betur til skráningar og utanumhalds.
Jafnframt eru greiðslumöguleikarnir – þ.e. að greiða þurfi í einu lagi fyrir allt liðið – hugsaðir til þess að auðvelda og einfalda afhendingu keppnisgagna (armbanda) og koma í veg fyrir þá örtröð sem skapast hefur á hverju ári að morgni föstudags þegar hundruð einstaklinga mæta til að greiða eingöngu fyrir sig og sækja sitt armband.