Að loknu Pollamóti Samskipa
júlí 6, 2020Breyttar áherslur í skráningu liða
maí 13, 2021Þegar þetta er ritað og birt þann 23. mars eru rétt um 100 dagar fram að Pollamótinu 2021. Stefnt er að því að halda Pollamót Samskipa á hefðbundnum tíma þetta árið, fyrstu helgina í júlí. Umfang, dagskrá og skemmtanir í kringum mótið munu taka mið af ástandinu og reglum sem gilda munu þegar þar að kemur og því lítið hægt að fullyrða um slíkt enn sem komið er. Við erum bjartsýn og stefnum á flott mót eins og alltaf og högum undirbúningi með það í huga að fá til okkar frábæra skemmtikrafta og bjóða upp á gott mót og góða skemmtun á Þórssvæðinu í byrjun júlí.
Breyting á aldursflokkum
Undanfarin ár hafa komið fram óskir um að hækka aldursmörk í elsta flokki hjá körlunum og hafa þær raddir orðið háværari með hverju árinu. Það er skiljanlegt því sem betur fer hefur dágóður hópur eldri knattspyrnumanna haldið mikilli tryggð við mótið og tekið þátt að segja má áratugum saman. Elstu keppendur eru á sjötugs- og jafnvel áttræðisaldri og orðið dálítið langt aldursbil fyrir þá að etja kappi við 45 ára gamla unglinga. Aldursmörkin í Öðlingadeildinni verða því færð upp í 50 ár í stað 45. Þetta kallar á endurskoðun og breytingar í yngri flokkunum einnig.
Sú breyting verður í karlaflokki að deildirnar verða fjórar í stað þriggja sem hafa verið. Það þýðir væntanlega færri lið í hverri deild og verður keppnisfyrirkomulag einfaldlega sniðið að fjölda í hverri deild, en þó auðvitað með það að markmiði að öll lið spili að lágmarki ákveðinn fjölda leikja og helst þannig að fram fari úrslitakeppni, eða að minnsta kosti úrslitaleikur um sigur í viðkomandi deild. Allt slíkt ræðst þó af þátttökunni hverju sinni.
Breytingar á aldursflokkum koma að sjálfsögðu misjafnlega niður á eða henta liðum misjafnlega vel og því verðum við opin fyrir ábendingum og hugmyndum. Hafa ber í huga að skipulagið miðar að því að bjóða upp á gott mót fyrir alla þátttakendur til framtíðar, en ekki að laga mótið að breytilegum hagsmunum tiltekinna hópa hverju sinni. Stefnt er að því að gera viðamikla könnun á meðal þátttakenda að móti loknu.
Ákveðið hefur verið að aldursflokkar á Pollamótinu 2021 verði sem hér segir:
Karlar:
Polladeild: 28+
Jarladeild: 35+
Lávarðadeild: 42+
Öðlingadeild: 50+
Konur:
Skvísudeild: 20+
Dömudeild: 30+
Ljónynjudeild: 40+
Engar undanþágur
Lögð er áhersla á það af hálfu mótshaldara að ekki verða veittar undanþágur fyrir leikmenn að spila í aldursflokki ofar. Aldursskiptingin verður að liggja einhvers staðar og hjá öllum liðum kemur sá tími að hluti liðsins er gjaldgengur með eldri flokki en ekki allir. Þannig verður það alltaf. Eins og þátttakendur á Pollamótum vita eru mörg liðanna skipuð vinahópum á svipuðu aldursbili. Við getum tekið dæmi um lið þar sem leikmenn eru á bilinu 33ja ára upp í 38. Hluti hópsins væri því ekki löglegur í Jarladeildinni, sem þýðir einfaldlega að til að allur hópurinn geti verið með þarf liðið enn um sinn að skrá sig til leiks í Polladeildinni á meðan þeir yngstu eru enn of ungir fyrir Jarladeildina. Það er svo undir hverju og einu liði komið hvenær það skráir sig í næstu deild fyrir ofan og hvort þá hluti hópsins getur ekki verið með vegna aldurs. Í því sambandi má einnig benda á leikmannamarkaðinn. Við tökum bæði við beiðnum frá liðum sem vantar leikmenn og frá leikmönnum sem vantar lið.
Um þátttöku í elsta flokki kvenna er meiri óvissa en hjá körlunum því ávallt hafa verið nokkuð færri kvennalið en karla. Ákveðið var að fara í gang með þessa skiptingu og sjá hver viðbrögðin verða. Ef tilefni þykir til verða deildirnar endurskoðaðar, og þá að sjálfsögðu í samráði við væntanlega þátttakendur. Þessi skipting er því birt með fyrirvara um skráningu – og það á auðvitað við um karlaflokkinn einnig. Vonandi þarf þó ekki að hætta við breytingar, en við erum viðbúin og bregðumst við ef þurfa þykir.
Orðalag og annað í reglum mótsins er einnig í endurskoðun og munu uppfærðar reglur verða birtar fljótlega hér á vefnum.
Það nýmæli verður einnig tekið upp við skráningu liða að þau sem eru í forsvari fyrir lið og sjá um skráningu þurfa að skrá ítarlegri upplýsingar en áður – t.a.m. nöfn og kennitölur allra leikmanna og lit á keppnistreyjum. Allt miðar þetta að því að bæta umgjörð og framkvæmd mótsins.
Skráning á mótið fer í gang innan tíðar. Fylgist með.